Á síðasta fundi nefndarinnar var m.a. farið í gegnum verkefni skólans í vetur á sviði umhverfis- og lýðheilsumála og í ljós kom að þau voru mörg og góð. Að venju var byrjað á að kjósa í nýja nefnd og fyrstu mál voru að fara í gegnum umhverfis- og lýðheilsusáttmálann og samþykkja til næstu tveggja ára og að yfirfara markmið í umhverfis- og lýðheilsumálum fyrir árin 2017 – 2019.
Önnur verkefni: Unnið samkvæmt skipulagi allsherjastunda (tæma plast og pappírsdalla og brjóta saman pappakassa í eldhúsi. Þessu var alltaf skilað út í endurvinnslugám. Spiluðum náttúruspil, horfðum á fræðslumyndir, héldum þjóðfundi, undirbjuggum málefni umhverfis og lýðheilsuþingsins o.fl). Sömdum nýjar skólareglur, héldum áfram í umhverfisverkefninu „Fjallið heima“. Of fáir skiluðu mynd þetta haustið. Nemendur í 5. – 7. bekk tóku þátt í vistheimtarverkefni Landverndar í september, fjallað var um plastpokanotkun og hvort hægt væri að draga úr notkun plastpoka meira en orðið er. Úr varð að allir saumuðu fjölnota poka úr bolum sem flestir nemendur komu með að heiman. Þá tókum við í gagnið nýjan moltukassa sem nemendur smíðuðu en fyrsta moltan er orðin nothæf og tilbúin í verkefni. Endurtókum matarsóunarverkefni frá í fyrra og vigtuðum matarafganga í 4 vikur í upphafi árs og nokkrir nemendur luku við stórt myndverk sem táknar umhverfis- og lýðheilsusáttmála skólans. Héldum útiskóladag sem nýttur var í ruslatýnslu og fleira til að snyrta og fegra umhverfið og undir vorið var haldið glæsilegt umhverfis- og lýðheilsu þing í skólanum. Allir nemendur tóku þátt í verkefnavinnu og komu fram með glærukynningar. Að lokum var tvöföld kosning um næsta þema grænfánans og niðurstaða nemenda var að á næsta ári munum við fræðast um og skoða orkuna. Það er mjög áhugavert og verður vafalaust mjög skemmtilegt.
Til að fylgja straumum og áherslum í málaflokkunum fór Aníta forsvarsmaður heilsueflandi verkefnisins í haust á ráðstefnu Landlæknisembættisins fyrir heilsueflandi skóla og í febrúar fór Sigrún, forsvarsmaður umhverfisverkefnisins á ráðstefnu Landverndar fyrir skóla á grænni grein.
Fyrsta verkefni næsta haust verður að sækja um 4. Græfánann fyrir Stórutjarnaskóla en annað hvert ár þarf að endurnýja umboðið og fá úttekt á því hvort við séum að sinna málaflokknum með fullnægjandi hætti.
Eins og myndirnar (hér) sýna voru nemendur glaðbeittir og kátir eftir setu sína í nefndinni í vetur. |