11. september 2017 16:12 (1 lesandi hefur sagt álit sitt.)
Allsherjar útiskóladagur þriðjudaginn 5. september sl.
Samkvæmt skóladagatali stóð til að allir nemendur skólans ásamt kennurum færu út úr skólastofunum og út í haustnáttúruna til að upplifa öðruvísi nám og kennslu sl. mánudag. En vegna rigningar var þeim verkefnum frestað um einn dag. Megin verkefni dagsins voru skipulögð af umsjónarkennurum og aðstoðarfólki þeirra en einn þáttur var þó skipulagður af Rannveigu Magnúsdóttur hjá Landvernd. Hún kom til okkar um hádegi og var með nemendum í 5. – 8. bekk ásamt þremur kennurum að taka út og mæla vistheimtarverkefnið frá því fyrir ári síðan.
Morguninn nýttist fyrir alla hópa í útiverkefnum sem höfðu það sameiginlega þema að höfða til sjálfstæðra vinnubragða nemenda, útsjónarsemi og samvinnu. Elstu nemendur fóru í krefjandi ratleik, yngri nemendur leystu þrautir með ýmsu því sem þeir fundu í náttúrunni og yngstu nemendurnir leituðu í grasafræðina m.m. Eins og fyrr sagði fór svo stór hópur í vistheimtarverkefni eftir hádegi til að mæla með vísindalegum aðferðum gróður í þeim reitum sem fengu áburðarefni í fyrra. Niðurstöður munu liggja fyrir síðar. Á meðan fóru aðrir nemendur í verklegar framkvæmdir og lagfæringar heima við skóla.
Góður dagur en þó verður að segjast að veðurfræðingum tókst ekki sem skyldi að spá fyrir um vætuna þó ekki sé hér beinlínis verið að kenna þeim um hana. Myndir hér.