Miðvikudaginn 3. mars héldu nemendur og starfsfólk Stórutjarnskóla í skíða- og brettaferð í Hlíðarfjall. Farið var með skólabílum og fyrsta stopp var í Skíðaþjónustunni sem leigði þeim sem vildu skíðabúnað. Allt klárt og merkt þegar við komum þar og þjónustan til fyrirmyndar. Sumir nemendur voru að stíga á skíði eða bretti í fyrsta sinn á ævinni, aðrir voru vanari, kannski aðallega eftir fyrri skólaferðir og svo voru enn aðrir sem stunda skíði og voru öllum hnútum kunnugir í fjallinu.
Dvölin í fjallinu einkenndist af jákvæðni og gleði og augljóst að „gamanið“ réðst ekki af getunni, þvert á móti. Um hádegi voru flestir orðnir vel svangir og þá var gott að grípa til matar en meðferðis voru samlokur og drykkir.
Vegna fjöldatakmarkana höfðum við knappari tíma í fjallinu en venjulega og við fórum heim um kl 13:00, þótt nokkur töf hafi orðið vegna þeirra sem fylgdust ekki vel með tímanum.
En mikið óskaplega var þetta nú samt gaman :) Myndir hér.