27. maí 2021 15:18 (2 lesendur hafa sagt álit sitt.)
Samstarf til fyrirmyndar
Á síðustu dögum þessa skólaárs komu Matthildur nemandi í 8. bekk og Sigga umsjónarkennari hennar færandi hendi í leikskólann. Þær færðu okkur að gjöf stafrófið sem Matthildur hafði unnið að í vetur, en hún hannaði það og teiknaði á litla viðaplatta sem keyptir höfðu verið í Skógræktinni í Vaglaskógi. Stafrófið er vandað og vel gert, augljóst að mikil vinna hefur verið lögð í verkið. Stafrófið samanstendur af þremur mismunandi plöttum; myndaplattar, plattar með hástöfum og svo plattar með há- og lágstöfum saman. Nemendur fóru strax leika sér með stafrófið þar sem þau völdu sér mynd og leituðu svo að upphafstaf orðsins. En svona mynda- og stafaplatta er hægt að nota á fjölbreyttan hátt til að efla læsi í gegnum leik. Hægt er að nota myndirnar sem sögugrunn, finna orð sem rýma og stafa orð svo eitthvað sé nefnt. Samvinna milli skólastiganna á sér margar birtingarmyndir og er gaman þegar svona verkefni verða til og tengingar milli unglingastigsins og leikskólans.
Takk kærlega fyrir þessa eigulegu og flottu gjöf, hún á eftir að vera mikið notuð. Myndir hér.