Umhverfis- og lýðheilsuþing var haldið þann 4. maí. Aðalfyrirlesari þingsins var Ólafur Sóliman matreiðslumeistari. Hans erindi fjallaði um mikilvægi góðrar næringar fyrir okkur öll. Hann talaði líka um vistspor og framleiðslu matvæla í heimahéraði sem skiptir sköpum þegar kemur að loftlagsmálum. Olga leiddi hléæfingar og Arndís, nemandi í umhverfis- og lýðheilsunefnd kynnti niðurstöður úr rannsókn á matarsóun sem framkvæmd var í skólanum í mars s.l.. Marika stjórnaði svo fjöldasöng og að lokum var sagt frá þróunarverkefni sem skólinn tekur þátt í ásamt nokkrum erlendum skólum. Þátttaka í þróunarverkefnum eru mikilvægur þáttur í skólastarfi. Samskipti okkar við skóla í Eistlandi, Frakklandi og Ítalíu, eflir bæði kennara og nemendur. Stærðfræði og vísindi eru aðal áhersluþættir verkefnisins, þar sem nemendur allra þátttökulanda vinna fjölbreytt verkefni og skila niðurstöðum í sameiginlegar rafbækur. Myndir hér.
Vortónleikar voru einnig haldnir 4. maí. Efnisskrá var fjölbreytt og áhugaverð þar sem nánast allir nemendur skólans komu fram. Marika kynnti flytjendur og tónlist og saman voru þau Ármann nemendum til aðstoðar. Framfarir og framkoma nemenda var til fyrirmyndar og stóðu sig allir með prýði.
Eftir tónleikana var hefðbundin kaffisala með glæsilegum veitingum sem nemendur og foreldrar nemenda í 9. og 10. bekk stóðu fyrir. Allur ágóði sölunnar er til styrktar ferðasjóði nemenda.
Við þökkum öllum sem fram komu og þeim sem komu að undirbúningi fyrir þeirra framlag. Þetta var góður dagur. Myndir hér.
Nemendur og starfsfólk Stórutjarnaskóla |