Nú er komið á þrjðja ár frá því að nemendur og starfsfólk Stórutjarnaskóla hófu þátttöku í vistheimtarverkefni Landverndar. Fyrsta árið var mælt út fyrir gróðurreitum og þeir merktir með flöggum og snúrum. Einnig var þá komið fyrir ýmsum uppgræðsluefnum í reitunum eftir þar til gerðri formúlu og verkinu stjórnað af Rannveigu Magnúsdóttur frá Landvernd. Efni sem sett voru í reiti voru skítur, molta, moð, fræ og áburður og bara áburður. Svo leið fyrsta árið og í september í fyrra var gerð rannsókn á gróðri með ákveðinni mælingu. Gerð var grein fyrir því verki og niðurstöðum á umhverfis- og lýðheilsuþingi skólans í apríl síðastliðnum.
Í gær, þriðjudaginn 4. september, var farið í aðra gróðurrannsókn. Nú voru mælingar endurteknar með sama hætti og í fyrra og niðurstöður nákvæmlega skráðar á blöð. Síðar verða þær skoðaðar og kynntar. Það voru nemendur í 5. 6. og 7. bekk sem hófu leikinn og eru sömu nemendur enn að, en nú í 7. 8. og 9. bekk. Þeir eru því farnir að þjálfast í þessu verkefni enda gengu mælingar hratt og vel fyrir sig. Sem fyrr kom Rannveig Magnúsdóttir frá Landvernd að stýra verkefninu og kennararnir Nanna, Sigríður og Sigrún voru til aðstoðar ásamt Daða Lange Friðrikssyni frá Landgræðslunni.
Að þessu sinni fengum við gesti frá Þelamerkurskóla, þrjá nemendur úr umhverfisnefndinni þeirra ásamt kennara sínum og þeir fylgdust með og kynntu sér verkefnið.
Þetta verkefni mun halda áfram næstu árin, því er hvergi nærri lokið. Myndir hér.