Aðal fyrirlesari þingsins var Snæbjörn Sigurðarson framkvæmdastjóri Eims sem fjallaði um orku framtíðarinnar en erindi hans bar yfirskriftina „Sjálfbær orkunýting á Norðausturlandi í nútíð og framtíð“ . Einnig var sérstakur gestur á þinginu, Orri Páll Jóhannsson aðstoðarmaður umhverfis- og auðlindaráðherra. Hann var starfsmaður skóla á grænni grein fyrir 10 árum og var skólanum til aðstoðar við upphaf grænfánaverkefnisins og reyndist mjög vel.
Anita Karen Guttesen var með erindið „Hvað höfum við gert“? um heilsueflandi verkefni skólans á liðnum árum, en skólinn gekk í raðir heilsueflandi skóla árið 2012.
Loftslagsmál hafa verið mjög í brennidepli undanfarið og um þau fjölluðu flestir nemendur í 6. – 10. bekk en þeir höfðu margt til málanna að leggja. Þeirra erindi hét „Raddir nemenda“, mjög lýsandi því nemendur komu víða við, töluðu frá eigin brjósti um flest það í fari eldra fólksins sem með einu eða öðru móti hefur á endanum áhrif á loftslagið. Einnig bentu þau á ýmislegt sem betur mætti fara. Yngstu grunnskólanemendurnir ásamt Birnu Davíðsd. sögðu frá öllum heimarafstöðvum á skólasvæðinu í tengslum við þema grænfánaverkefnisin sem er orka. Nemendur í 3. – 5. bekk ásamt Sigrúnu Jónsd. voru með samantekt á því helsta sem farið hefur fram á umhverfis- og lýðheilsuþingum skólans frá upphafi. Haldin hafa verið 9 umhverfis- og lýðheilsuþing. Þar hafa komið fram 17 fyrirlesarar, flestir utanaðkomandi, með fjölbreytta fræðslu og á hverju ári hafa nemendur skólans komið fram með kynningarefni, alls 16 verkefni. Á hverju þingi hafa nemendur flutt tónlistaratriði, alls 12 lög og sum oftar en einu sinni og gestir og heimafólk hafa sungið saman eitt lag um lífið og náttúruna á hverju þingi, alls 8 lög.
Í hléi báru matráðar fram veitingar, drykki og ávexti en að auki bollur sem innihéldu eingöngu íslenskt hráefni, kotasælu, egg og haframjöl og svo grænmeti úr heimabyggð, frá Reykjum, Hallgilsstöðum og Hveravöllum. Að lokum má nefna að tveir kennarar klæddust nýsaumuðu til að sýna fram á hvernig hægt er að skapa nýjar flíkur úr notuðu. Umhverfisvænt og ódýrt. Myndir hér.
Myndir: jr |