24. febrúar 2020 08:41 (1 lesandi hefur sagt álit sitt.)
Vetur í aðalhlutverki
Veðrið
Fimmtudaginn 20.02.2020 var útiskóli á stundatöflu drengjanna í hópi tvö. Veðurlýsing veðurfræðings dagsins virtist bjóða upp á fínasta útiskólaveður, norðan kalda, 2°C og snjóél. En skjótt skipast veður í lofti nú sem fyrr. Þegar lagt var af stað í útiskólann 20 mín síðar gekk á með hvössum rokum með tilheyrandi renningi og látum. Engu að síður var haldið í verkefni í lautinni og nú kom sér vel að eiga þar hús til að geta skriðið í skjól. Ein snjóskófla var með í för og svo skemmtilega vildi til að umfjöllunarefni dagsins var um veður og snjó.
Fjallað var um veðurfar undanfarinna vikna og snjóinn, hve breytilegur hann getur verið og mismunandi snjóalög. Snjódýptin á útiskólasvæðinu er í sögulegu hámarki að mati kennarans, hliðið sem að jafnaði er gengið um á leið í lautina er nú vel falið undir snjóskafli. Fram undir þetta hefur efsti hluti þess staðið upp úr. Þá var svolítið skrýtið hve göngustígurinn á milli trjánna var orðinn þröngur, greinarnar slógust í andlitin og lítið sem ekkert sást í stóru furutrén sem sum hver voru mæld allt að 2,5 metrum á hæð í haust.
Eftir spjall og vangaveltur í Álfaborg fóru nokkrir vaskir drengir út og hófu snjóhúsagerð inn í skaflinn til að skoða hvort hægt væri að sjá mismunandi snjóalög í skaflinum og það gekk eftir. En flestir voru sammála um að nóg væri komið af vindi og snjó þennan veturinn og vegna láta í veðrinu var haldið inn með fyrra fallinu enda búið að læra margt og mikið á stuttum tíma og finna veðrið á eigin skinni. Myndir hér.