 |
GRENNDARVITUND
Maríugerði (Strympa)
Árið 1925 var byrjað að grafa fyrir þinghúsi fyrir Ljósavatnshrepp í Maríugerði, rétt norðan við Ystafell. Undirbúningur hafði staðið í einhver ár og ekki voru allir sammála með staðsetningu og stærð. Ljósavatnshreppur byggði húsið og U.M.F. Gaman og alvara var hluthafi. Formaður byggingarnefndar var Kristján Halldórsson á Stórutjörnum. Mölin í húsið var tekin í Borgargerði, en það var norðan við heimreiðina í Gvendarstaði, austan ár. Veturinn 1925-26 var mölinni ekið á sleðum í góðri tíð. Ungmennafélagið lagði sinn hluta fram með sjálfboðavinnu. Við steypuvinnuna voru notuð flekamót sem voru dregin upp, það voru steyptir tveir veggir og holrúm á milli, sem síðan var fyllt með mómold. steypan var hrærð með skóflum á palli og síðan rétt upp í mótin í fötum. Húsið varð fokhelt um haustið 1926. Fyrsta samkoman var haldin að vorlagi sennilega 1928. Þá var ekki búið að byggja skúrinn austan við aðalhúsið og það var bara brattur fleki við dyrnar.
Á árinu 1928 flutti fjöldskyldan sem seinna byggði nýbýlið Hlíð, í kjallara hússins og bjuggu þau þar í 3-4 ár. Fundir og aðrar skemmtanir voru haldnar í húsinu þótt þar byggi fólk. Margar leiksýningar og böll voru haldin í Strympu, eins og þinghúsið var alltaf kallað. Eftir að Ljósvetningabúð var byggð var húsið notað sem geymsla í mörg ár. Upp úr 1990 urðu kaflaskil í sögu hússins, en þá tók Sigurður Bjarklind það á leigu og breytti því í sumarbústað. Sigurður hefur lyft Grettistaki í fegrun á umhverfi og uppgerð á húsinu sjálfu, eins og vegfarendur geta örugglega tekið undir.
Byggt á frásögn Jónasar á Gvendarstöðum.
Friðgeir Andri
|
 |