Hefðir í skólastarfi

SAM-skólasamstarf


Skólinn á í samstarfi sem nefnist í daglegu tali SAM-skólarnir. Þeir eru auk Stórutjarnaskóla; Grenivíkurskóli, Valsárskóli og Þelamerkurskóli. Þarna er uppistaðan svokölluð SAM-skólaböll, þar sem nemendur elstu bekkja koma saman, að jafnaði einu sinni í hverjum skóla yfir veturinn. Íþróttadagar eru sameiginlegir fyrir 8.-10. bekk og 5.-7. bekk, þar sem nemendur keppa í blönduðum liðum, og efla þannig samkennd og kunningsskap.
Auk þess má nefna fundi skólastjórnenda og sameiginleg námskeið fyrir starfsfólk í upphafi skólaárs.
Enn skal telja að SAM-skólarnir hafa skipulagt sameiginlegar fræðsluferðir starfsfólks til annarra landa.

 

Menningarstundir


Svonefndar menningarstundir eru á dagskrá að jafnaði fimm sinnum á vetri. Aðalefni þeirra er tónlistarflutningur tónlistarnemenda og hafa tónlistarkennarar veg og vanda af öllu skipulagi. Stöku sinnum er þó skotið inn með töluðu orði, upplestri, leiklestri eða tali og tónlist í bland, s.s. á Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember ár hvert.

 

Afmælissöngur í matsal


Ef afmæli nemenda eða starfsmanna skólans ber upp á skóladag syngja allir afmælissönginn í matsal, afmælisbarninu til heiðurs. Tónlistarkennari stjórnar söngnum.

 

Skólahlaup


Sú hefð hefur skapast í tengslum við Norræna skólahlaupið að farið er með alla nemendur á nýjan og nýjan stað á skólasvæðinu þar sem heppilegt er að þreyta hlaupið. Markmiðið er að nemendur kynnist landslagi, náttúru og byggðinni á sínum heimaslóðum.

 

Dansvikan


Á hverjum vetri, nálægt mánaðarmótum nóvember og desember, er boðið upp á 5 daga dansnámskeið fyrir alla nemendur. Kennslan fer fram á skólatíma og er nemendum skylt að sækja námskeiðið sem er þeim að kostnaðarlausu. Í lok danskennslunnar er svo danssýning, þar sem foreldrar, afar og ömmur og aðrir gestir líta á dansmenntina. Eftir sýningu er öllum boðið upp á veitingar.

 

Litlu jól


Litlu jól eru haldin síðasta kennsludag fyrir jól. Nemendur mæta seinna þennan dag og fara í stofur sínar, þar sem þeir eiga hátíðlega samverustund með bekkjarfélögum og umsjónarkennara. Kveikt er á kertum, kennarinn les jólasögu, bögglaskipti eru fastur liður í grunnskólanum. Að þessu loknu fara allir í matsal og nemendur og starfsfólk snæða hátíðarmáltíð með tilheyrandi eftirrétti og möndlugjöfum. Allir eru prúðbúnir, hátíðlegir og stilltir. Síðan halda allir í íþróttasalinn og hlýða á prestinn tala um jólahátíðina og fulltrúi nemenda les jólaguðspjallið. Að lokum er gengið kringum jólatréð og sungin jólalög, en meðan á því stendur koma jafnan jólasveinar í heimsókn.

 

Þorrablót


Þorrablót með þorramat eru fastur liður á Þorranum. Þau eru haldin í tvennu lagi, yngri nemendur og leikskólabörn að deginum og bjóða foreldrum. Eldri nemendur og starfsfólk halda kvöldblót.
Á báðum blótum eru heimagerð skemmtiatriði með tilheyrandi fíflalátum, og allir skemmta sér konunglega.

 

Sólarpönnukökur


Um 10. febrúar ár hvert er þess minnst að þá sér til sólar, eftir langt sólarleysi milli fjallanna í Ljósavatnsskarði. Pönnukökur í eftirrétt í hádeginu, og sólin gægist inn um gluggana í matsalnum.

 

Árshátíð


Árshátíð skólans er jafnan haldin í marsmánuði, kvöldskemmtun með fjölbreyttri dagskrá, s.s. leiklist, tónlist og söng. Allir nemendur grunnskólans og elstu nemendur leikskólans koma fram og stíga á svið. Að dagskrá lokinni er veislukaffi fyrir alla. Aðgangseyrir gengur í ferðasjóð 9. og 10. bekkjar.

 

Vorþemavika


Síðasta vika fyrir skólalok ár hvert nefnist „vorþemavika“. Það fer þó eftir aðstæðum hverju sinni hve margir dagar eru í þessari viku (frídagar). Vorþemavikan er frábrugðin hefðbundnum vikum í skólastarfinu. Þá gefst þeim nemendum sem þess þurfa kostur á að dvelja heima við bústörf eða annað sem að gagni má verða. Hugsanlega ráða þeir sig annars staðar en heima, þar sem liðveislu er þörf. Allir nemendur sem ekki koma í skólann í vorþemaviku gera starfssamning við ákveðinn ábyrgðarmann á heimilinu og halda síðan dagbók, sem þeir skila í skólann. Þannig á að vera tryggt að vorþemavikan skili því sem henni er ætlað, að nemandinn komi að sem mikilvægur starfskraftur á fáliðuðum búum og efli með sér ábyrgðartilfinningu og verkþekkingu. Þeir sem mæta í skólann í vorþemaviku vinna þar að ýmsum verkum, s.s. hreinsun lóðar og umhverfis, gróðursetningu trjáplantna, fuglatalningum o.fl.