Áætlun um mat á skólastarfinu

Í gildandi lögum um skólahald er að finna ákvæði þess efnis að hver skóli skuli framkvæma mat á starfi sínu, svo kallað sjálfsmat. Megintilgangur sjálfsmatsins er að gera starfsfólki viðkomandi skóla auðveldara að vinna að framgangi markmiða skólans, meta hvort þeim hafi verið náð, endurskoða þau og stuðla að umbótum. Með sjálfsmati fer fram víðtæk gagnaöflun um skólastarfið sem veitir upplýsingar um í hve miklum mæli árangur skólastarfsins er í samræmi við markmið. Sjálfsmat er ekki unnið í eitt skipti fyrir öll heldur þarf að vinna stöðugt að því. Sjálfsmatsskýrsla þar sem niðurstöður mats og tillögur til úrbóta eru birtar, er hluti sjálfsmats skóla.


Í Stórutjarnaskóla vilja allir starfsmenn ígrunda reglulega frammistöðu sína í starfi og leggja mat á störf sín og árangur. Eigið mat starfsmanna og formlegt mat liggur til grundvallar umbótastarfi í skólanum. Sérstakir hópafundir, þar sem fjallað er um einstaka þætti skólastarfsins, auk formlegs mats starfsmanna að vori, eru fastir þættir í sjálfsmati skólans. Þá eru kannanir sem lagðar eru fyrir nemendur, foreldra og starfsfólk, einnig veigamikill þáttur í matinu.