Upphaf skólagöngu – Aðlögun
Með aðlögun er átt við ferli sem þarf að eiga sér stað til að hver nýr nemandi í Stórutjarnaskóla finni til öryggis og vellíðunar í nýjum kringumstæðum.
Hlýleg og traust umönnun er grundvallarforsenda þess að börn geti unað, leikið sér og lært í skóla.
Í upphafi skólagöngu þarf barn góðan tíma til að aðlagast umhverfinu, starfsfólki og öðrum börnum. Barnið þarf að læra að vera í hópi, læra reglur og taka tillit til annarra.
Börn þurfa mismunandi langan tíma til að aðlagast, þau yngri þurfa lengri tíma en þau eldri oft styttri.
Til þess að þetta gangi vel er afar mikilvægt að góð samvinna, traust og trúnaður náist á milli foreldra og starfsfólks.
Í Stórutjarnaskóla fer aðlögunin þannig fram að á leikskólastiginu er gerð áætlun í samráði við foreldra um það hvað hentar best fyrir barnið og foreldrana.
Þá getur stytt aðlögunarferlið ef börnin eiga eldri systkini í skólanum.
Flutningur nemenda milli námshópa
Í Stórutjarnaskóla er samkennsla árganga mikil. Nemendum er skipt í námshópa eftir aldri og jafnframt er leitast við að blanda þeim saman eftir öðrum leiðum. Á hverju hausti hefja nemendur nám í nýjum námshópi. Tekið er tillit til þess í upphafi skólaárs að nemendur þurfa tíma til að kynnast nýjum aðstæðum s.s. kennara, stofu, samnemendum, kennsluháttum og námsbókum.
Yfirleitt gengur flutningur nemenda milli bekkja mjög vel þar sem skólinn er fámennur og allir þekkja alla. Sé þess þörf hittast kennarar á skilafundi þar sem nám og þroski nemanda er til umfjöllunar.
Að vori fara útskriftarnemar leikskólans í útskriftarferð. Þegar nemendur ljúka leikskólastigi fá þeir afhent viðurkenningarskjal og blóm á skólaslitum.
Móttaka nýrra nemenda sem hefja nám síðar en á leikskólastigi
Mikilvægt er að fyrstu kynni nemenda af nýjum skóla séu góð. Nemandi sem hefur nám í Stórutjarnaskóla síðar en á leikskólastigi er boðaður í móttökusamtal ásamt foreldrum eða forráðamönnum. Skólastjóri og verðandi umsjónarkennari taka á móti nemandanum og fjölskyldu hans. Í móttökusamtali er farið yfir eftirfarandi atriði:
• Persónulegar upplýsingar um nemenda s.s. heilsufar og sérþarfir
• Skólanámskrá, helstu atriði
• Skólahúsnæðið kynnt
Aðlögun nýrra nemenda er einstaklingsbundin og er í samráði við foreldra ákveðið hvernig henni skuli háttað.
Lok skólagöngu
Við lok skólagöngu skulu allir nemendur hafa fengið náms- og starfsráðgjöf. Sú þjónusta fer þannig fram að námsráðgjafi veitir nemendum viðtöl hér í skólanum þar sem þeim gefst kostur á aðstoð við val á framhaldsnámi. Einnig er gerð áhugasviðskönnun hjá nemendum (sjá kafla um sérfræðiþjónustu).
Kynning á framhaldsskólum fer m.a. þannig fram að elstu bekkir skólans heimsækja framhaldsskóla í grenndinni ásamt umsjónarkennara sínum, þar sem þeim gefst tækifæri til að kynna sér möguleika til framhaldsnáms.
Útskriftarferð er farin héðan frá Stórutjarnaskóla annað hvert ár og fara þá nemendur 9. og 10. bekkjar saman ásamt starfsmönnum.
Útskrift
Útskrift nemenda 10. bekkjar frá Stórutjarnaskóla fer fram með formlegum hætti, við skólaslit, þar sem þeir fá afhent skírteini sem staðfestir að þeir hafi lokið grunnskóla. Skírteinið skal veita vitnisburð um það nám sem nemendur hafa stundað, á lokaári sínu í skólanum, og innihalda allar þær upplýsingar um námið sem kveðið er á um samkvæmt lögum. Skírteinið veitir svo nemendum aðgang að framhaldsskóla.