1. Desember

Vikuna 27. nóvember til 1. desember var Kara Arngrímsdóttir danskennari hjá okkur og kenndi nemendum dans. Dansvikan er alltaf svolítið eins og upphafið af jólavertíðinni hjá okkur. Að morgni 1. des byrjuðum við á að tendra ljós á útijólatrénu sem við fengum frá Skógræktinni. Nemendur og starfsfólk gengu í kringum tréð og sungu nokkur jólalög. Nú stóð svo vel á að fullveldisdagurinn var á föstudegi og því kjörið að hafa stutta fullveldisdagskrá á undan danssýningunni. Atriði frá nemendum voru fjölbreytt og skemmtileg. Yngsta stig sagði okkur frá nokkrum nýyrðum sem Jónas Hallgrímsson bjó til, mið-stig flutti Grettisljóð og elsta stig sýndi myndband af leikþætti sem þau sömdu sjálf um tilurð fullveldis og sjálfstæðis Íslendinga.