Litlu-jól Stórutjarnaskóla voru haldin þriðjudaginn 19. desember. Litlu-jólin eru alltaf hátíðleg og er gaman að eiga notalega og skemmtilega samveru í skólanum áður en haldið er í kærkomið jólafrí. Jólahald snýst mikið um hefðir og voru litlu-jólin að þessu sinni mjög hefðbundin þar sem byrjað er á samverustund í heimastofu. Þar er lesin jólasaga og skipst á jólapökkum og kortum. Hátíðarmálverður er snæddur að samverustund lokinni þar sem einnig var að þessu sinni verðlaunað fyrir stærðfræðiþrautir og möndlugjöfum útdeilt. Allir þökkuðu Jóhönnu og Dagmar fallega fyrir matinn áður en haldið var í salinn. Dagskrá í sal hófst á því að Rakel Bára nemandi í 10. bekk las jólaguðspjallið og séra Sindri Geir sagði jólasögu. Þá var dansað og sungið í kringum jólatréið við undirleik Ármanns tónlistarkennara. Að venju komu svo rauðklæddir karlar í heimsókn og sungu og dönsuðu með nemendum í kringum jólatéið og gáfu mandarínur. Áður en nemendur héldu í jólafrí var eins og ævinlega endað á að syngja Heims um ból.