Árshátíð Stórutjarnaskóla var haldin föstudagskvöldið 10. nóvember. Elstu nemendur leikskóladeildar ásamt nemendum yngsta-stigs og miðstigs grunnskóladeildar sýndu Ávaxtakörfuna eftir Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur í leikgerð Nönnu Þórhallsdóttur og Birnu Friðriksdóttur. Nemendur elsta-stigs grunnskóladeildarinnar sömdu sitt verk sjálf en það nefnist Sverðið á eyjunni. Sigríður Árdal leikstýrði eldri nemendum.
Óhætt er að segja að vel hafi tekist til með bæði verkin og stóðu nemendur sig með stakri prýði og voru skólanum sínum til sóma. Almenn gleði var bæði á meðan á æfingum stóð á sjálfu árshátíðarkvöldinu, sem lauk með veglegri veislu að vanda. Allt starfsfólk kom með virkum hætti að undirbúningnum því svona viðburður verður auðvitað ekki til af sjálfu sér. Það þarf að undirbúa veislu, að aðstoða nemendur í búningagerð, við sviðsmynd og við æfingar. Ég vil sérstaklega nefna Ósk Helgadóttur sem hefur mörg undanfarin ár lagt sig alla fram þegar kemur að búningum, með það að aðalmarkmiði að öllum nemendum líði vel í sínum búningum.
Þegar allir, nemendur, starfsfólk og foreldrar vinna saman eins og gerist í árhátíðarundirbúningi, verður ferlið og útkoman alltaf gefandi og skemmtileg. Þó svo að kvíði og stress geri vart við sig hjá einhverjum endar alltaf með því að allt gengur upp í lokin. Bestu þakkir til ykkar allra sem tóku þátt í að gera árshátíðina okkar svona glæsilega.
Skólastjóri