Danssýning 29. nóvember 2024

Danssýning

Vikuna 25. -29. nóvember var dansvikan okkar og að venju kom Kara Arngrímsdóttir danskennari til okkar og var með danskennslu. Kara er eins og jólin kemur til okkar á hverju ári en hún hefur komið með örfáum undantekningum, frá því 1988 og eru þetta því orðin um það bil 35 ár.

Hver hópur grunnskóladeildar fékk tvær dansæfingar á dag og elstu tveir árgangar leikskóladeildar eina æfingu á dag. Mikil og jákvæð stemning var fyrir dansinum og ekki að sjá annað en flestir skemmtu sér vel og tækju miklum framförum.

Danssýning var svo föstudaginn 29. nóv. þar sem nemendur, foreldrar og aðrir gestir ásamt starfsfólki áttu góða samveru. Byrjað var á stuttri dagskrá í tilefni af Degi íslenskrar tungu og Fullveldisdegi Íslendinga. Leikskólanemendur sungu fyrir gesti, yngri nemendur grunnskóladeildar fluttu Dótarímur eftir Þórarinn Eldjárn og eldri nemendur grunnskóladeildar höfðu útbúið og hengt upp veggspjöld með upplýsingum um ýmislegt sem viðkemur fullveldi okkar og stjórnmálum. Sem kom sér mjög vel þar sem kosningar til alþingis voru daginn eftir. Gestir gátu þarna fundið ýmsan merkilegan fróðleik um þá flokka sem í framboði voru. Danssýningin var glæsileg að vanda og stóðu nemendur sig með prýði. Foreldrar og aðrir gestir fengu að venju að spreyta sig líka. Í lokinn var svo boðið upp á léttar veitingar.

Skólastjóri