Ræktum tengslin

Umhverfis- og lýðheilsunefnd hefur þetta skólaárið ákveðið að beina sjónum sínum að lýðheilsu fyrri part skólaársins og vinna þá eftir veggspjaldi frá Landlæknisembættinu sem kynnir fimm leiðir að vellíðan.

https://assets.ctfassets.net/8k0h54kbe6bj/51ZatBx6cvHDec5Pq6QBkS/77dfe9ecf8428d7ef11c0da0718376cd/Fimm_leidir_ad_vellidan_2017_A2_poster.pdf

Fyrsta þrepið er kallað „skapaðu tengsl“ en þar er talað um mikilvægi samskipta og að eyða tíma með fjölskyldu og vinum. Af því tilefni ákvað nefndin að efna til samhristings þar sem nemendur komu með foreldrum sínum til þess eins að leika sér saman og rækta tengslin við aðra í skólasamfélaginu. Ýmislegt var í boði svo sem borðspil, borðtennis og blak. Mikil stemning skapaðist í blakleikjum þar sem lið nemenda kepptu við lið foreldra. Rúsínan í pylsuendanum var svo vöfflukaffið sem selt var til fjáröflunar fyrir nýju borðtennisborði, sem passar vel inn í verkefnið, því eitt þrepið er kallað „hreyfðu þig“.

Þetta tókst allt saman mjög vel og mannskapurinn ánægður með framtakið. Fjáröflunin gekk vel og vantar aðeins örlítið upp á að nægur peningur hafi safnast fyrir borðinu. Gera má ráð fyrir að framhald verði á samhristingum af þessu tagi og ýmislegt fleira tengt þessum fimm leiðum að vellíðan.

Umhverfis- lýðheilsunefnd Stórutjarnaskóla