Sjaldgæfur fugl týnir lífinu

Fimmtudaginn 13. apríl 2023 gerðist sorglegur en áhugaverður atburður hjá 1., 2. og 3. bekk. Klukkan var nýbúin að hringja inn í fyrsta tíma, þegar krakkarnir heyrðu hljóð sem var eins og snjókúla hefði lent í rúðunni. Allir þutu út að glugga til að athuga hvað þetta væri og sáu þá pínulítinn fugl á jörðinni. Krakkarnir vildu endilega skoða fuglinn. Þau fóru niður að sækja skófatnað og skelltu sér út að skoða. Fuglinn var greinilega dáinn en enginn í stofunni hafði nokkru sinni séð svona fugl áður. Þetta var glókollur, sem er minnsti fugl á Íslandi, býr í skógum og er nýjasti landneminn. Krökkunum fannst þetta mjög spennandi en sumum fannst sorglegt að hann skyldi deyja.

 

Fuglinn var mældur á ýmsa vegu. Vænghafið var 14 cm, hann var 9 cm frá stéli að gogg, útbreitt stélið var 4 cm á breidd og þyngdin var 5 grömm. Það er mjög auðvelt að þekkja glókoll, því hann er pínulítill og er með skærgula rönd á hausnum. Um leið og við mældum fuglinn, fengu allir nemendur hópsins að taka myndir frá ýmsum sjónarhornum.

Okkur fannst þetta svo merkilegt að við fórum með fuglinn út um allan skóla og sýndum nemendum og starfsfólki. Myndir hér.