Um Stórutjarnaskóla

Stórutjarnaskóli er í Suður-Þingeyjarsýslu í sveitarfélaginu Þingeyjarsveit. Skólinn er samrekinn leik-, grunn- og tónlistaskóli. Skólasvæðið nær yfir Fnjóskadal, Ljósavatnsskarð, Bárðardal og Kinn. Skólastjóri er Birna Davíðsdóttir. Deildarstjóri tónlistardeildar er Marika Alavere og deildarstjóri leikskóladeildar er Hanna Berglind Jónsdóttir.

Stórutjarnaskóli er í miðju Ljósavatnsskarði um 1,5 km vestan við Ljósavatn. Hann stendur á eignarlóð, sem Stórutjarnasystkinin gáfu ásamt hitaréttindum. Lóð skólans er um 15 ha.

Byggingar skólans eru: Heimavistarálma 774m², 2 hæðir. Þar er heimavist, íbúðir fyrir starfsfólk og mötuneyti. Kennsluálma 590m², 1 hæð. Þar eru 7 kennslustofur og kennslueldhús. Tengiálma 460m², 2 hæðir. Í þeirri álmu eru m.a. íþróttasalur, setustofa, bókasafn og stjórnunaraðstaða. Bygging skólans hófst árið 1969. Fjögur sveitarfélög, Ljósavatns-, Háls-, Bárðdæla- og Grýtubakka- hreppar stóðu að byggingunni. Skólinn er nú rekinn af sveitarfélaginu Þingeyjarsveit, en það varð til árið 2002 við sameiningu Háls-, Ljósavatns-, Bárðdæla- og Reykdælahrepps. Grýtubakkahreppur gekk út úr samstarfinu árið 1985. Kennsla hófst haustið 1971 í heimavistarálmunni. Kennsluálman var tekin í notkun 1973 og tengiálman í áföngum 1976-1978.

Skólaárið 1984-1985 voru nemendur 100, þar af 80 í heimavist. Heimavist hefur nú verið aflögð en nemendum er ekið til skóla, nema þeim sem næstir búa.

Fyrsti skólastjóri var Viktor A. Guðlaugsson, 1971-1980.

Aðrir skólastjórar Stórutjarnaskóla hafa verið þessir:

  • Sverrir Thorstensen 1980-1990
  • Steinþór Þráinsson 1990-1991
  • Sverrir Thorstensen 1991-1992
  • Svanfríður Birgisdóttir 1992-1994
  • Ólafur Arngrímsson frá 1994.

 

Samantekt vegna 20 ára starfsafmælis Stórutjarnaskóla 30.11.1991

Skipurit Stórutjarnaskóla